Dýrð í dauðaþögn

 

1. Hærra

Hátt ég lyfti
huga mínum – á flug
legg við hlustir og nem
nem vindhörpuslátt.

Brátt ég eyði
öllum línum – á jörð
sýnist umhverfið allt
vera eilífðarblátt.

Hærra, hærra
heimsins prjál mér þykir verða fátæklegra og
smærra.

Seinna þegar
sólin ljómar – af ást
dylst í huga mér það
það draumljúfa kvöld

Þessi blámi
þessir hljómar – sem nást
einnig fögur og há
há heiðríkjutjöld.

Hærra, hærra
heimsins prjál mér þykir verða fátæklegra og
smærra.

Hátt ég lyfti
huga mínum – á flug
legg við hlustir og nem
nem vindhörpuslátt.

Brátt ég eyði
öllum línum – á jörð
sýnist umhverfið allt
vera eilífðarblátt.

Seinna þegar
sólin ljómar
þessi blámi
þessir hljómar
hátt ég lyfti
huga mínum
horfi yfir...

2. Dýrð í dauðaþögn

Tak mína hönd,
lítum um öxl, leysum bönd.
Frá myrkri martröð sem draugar vagg’ og velta,
lengra, lægra, oft vilja daginn svelta.

Stór, agnarögn,
oft er dýrð í dauðaþögn.
Í miðjum draumi sem heitum höndum vefur,
lengra, hærra á loft nýjan dag upphefur.

Finnum hvernig hugur fer,
frammúr sjálfum sér.
Og allt sem verður, sem var og sem er,
núna.

Knúið á dyr,
og uppá gátt sem aldrei fyrr.
Úr veruleika sem vissa ver og klæðir,
svengra, nær jafnoft dýrðardaginn fæðir.

3. Sumargestur

Fuglinn minn úr fjarska ber
fögnuð vorsins handa mér.
Yfir höfin ægi-breið
ævinlega – flýgur rétta leið.

Tyllir sér á græna grein
gott að hvíla lúin bein
ómar söngur hjartahlýr
hlusta ég á – lífsins ævintýr.

Fús ég þakka fuglinn minn
fyrir gleði-boðskapinn
þessa ljúfu tæru tóna - tóna.

Þegar haustar aftur að
af einlægni ég bið um það
að mega syngja sönginn þinn
sumargestur – litli fuglinn minn.

Fús ég þakka fuglinn minn
fyrir gleði-boðskapinn
þessa ljúfu tæru tóna - tóna.
Þú átt athvarf innst í sál
ó að ég kynni fuglamál
skyldi ég lag á lúftgítarinn prjóna.

4. Leyndarmál

Glitrar næturdögg, geng ég þar með henni
grátur hvítvoðungs berst frá rauðu húsi.
Læðast refahjón, lafir bráð úr kjafti
lerkiskógurinn hann fær margt að vita.

Þegar kóngurinn er með kross í hendi
koma hersveitir til að ná í skammtinn
svalir nátthrafnar sjá að nú er færi
sjúkleg árátta fær þá til að virka.

Tifar lífsins blóm, tóri ef ég nenni
tárast silfurberg svo langt frá steinhúsi
andar sunnanblær, eflist af lífskrafti
enginn maður veit og enginn fær að vita.

Þegar kóngurinn er með kross í hendi
koma hersveitir til að ná í skammtinn
svalir nátthrafnar sjá að nú er færi
sjúkleg árátta fær þá til að virka.

5. Hljóða nótt

Hljóða nótt er allt sem áður var?
Átti fley en man ekki hvar.
Flúinn farinn, hvað er sagt og séð?
Satt er vont ef lygi fylgir með,
reisir sverð og skjöld.

Ljóða nótt er allt sem áður var?
Átti skrín en man ekki hvar.
Lurkum laminn heimtar bæn og bón.
Brotin loforð gefa daufan tón,
bæði heit og köld

Góða nótt er allt sem áður var?
Átti gull en man ekki hvar.
Hvar er trúin sem á fætur fer?
Faðir heimsins viltu hjálpa mér,
trúum veitast völd.

Hljóða nótt er allt sem áður var?
Átti gersemi en ekki þar.
Flúinn farinn, hvað er sagt og séð?
Sumt var gott en annað fylgdi með,
reisir sverð og skjöld.

Sumt var gott en annað fylgdi með,
reisir sverð og skjöld.

6. Nýfallið regn

Glymur í bárujárni, barist er um nótt
blikar á tár og kannski vantar suma þrótt.
Húsið það lekur, myndast alltaf mygla þar
minningadrekar leynast næstum allsstaðar.

Í stríðum straumum fer
nálægt mér
nýfallinn regndropaher.

Svartur á leikinn, svona verður þetta hér
svífur nú bleikur máni yfir þér og mér.
Enda þótt næði flesta daga kalt um kinn
komum og ræðum þetta saman vinur minn.

Í stríðum straumum fer
nálægt mér
nýfallinn regndropaher.

7. Heimförin

Heim á leið, held ég nú
hugurinn þar er
hugurinn þar.

Ljós um nótt, lætur þú
loga handa mér
loga handa.

Það er þyngsta raun
þetta úfna hraun.
Glitrar dögg, gárast lón
gnæfa fjöllin blá
gnæfa fjöllin.

Einn ég geng, einni bón
aldrei gleyma má
aldrei gleyma.

Löng er för, lýist ég
lít samt fram á veg
lít samt fram á veg
lít samt fram á veg
lít samt fram á veg
lít samt fram á veg

Heim á leið, held ég nú
hugurinn þar er
hugurinn þar.

Ljós um nótt, lætur þú
loga handa mér
loga handa.

Það er þyngsta raun
þetta úfna hraun.

8. Að grafa sig í fönn

Hér á norðurslóð, nætur eru dimmar
og napur kuldinn leikur suma illa
á hugardjúpin sækja grýlur grimmar
og gleði dagsins verulega spilla.

Von og trú mig vantar núna
von og trú sem yljar hjarta
von og trú sem virkjar krafta
von og trú með ljósið bjarta
von og trú sem vekur gleði
von og trú í myrkrið svarta

Ýmsir rækja vel, heimskuna og háðið
en heldur minna það sem færi betur
að grafa sig í fönn gæti verið ráðið
og gleyma sér í allan, allan vetur.

9. Samhljómur

Nú er ég sál er fleytir fjörð og kyndir
uppsker fjörur, hreinar gæfulindir
augun líta himinhaf og tóna
augun horf’ og leita þess sem leita má
liggja flötum maga, hugsa, spá
samhljómur, í fyrr og nú.

Hver er sá er kylliflatur fellur
einhver falinn hinsta baulið gellur
augun líta grasi gróna skóna
augun geyma drauma þess sem dreyma má
dali yfirfyllt’ af von og þrá
samhljómur, því ég er þú.

Nú er ég sál er fleytir fjörð og kyndir
uppsker fjörur, hreinar gæfulindir
augun líta grasi gróna skóna
augun geyma drauma þess sem dreyma má
dali yfirfyllt’ af von og þrá
samhljómur, því ég er þú.

10. Þennan dag

Þú varst hjartablóm og ljóðadís og lag
í leiftursýn mér tókst að þekkja þig
þennan dag
og gæfan tók að gæla ögn við mig.
Svo leið tíminn hratt með lífsins dans og brag
mér lærðist tafarlaust að þekkja það
þennan dag
að gæfan verður seint á vísum stað.

Enn ég hugs’ um ástina og glaðan hag
og einnig þína mynd og þarflaust hik
þennan dag
hið eina litla, litla augnablik.

Þú varst hjartablóm og ljóðadís og lag
mér lærðist tafarlaust að þekkja það
þennan dag
að gæfan verður seint á vísum stað
að gæfan verður seint á vísum stað
að gæfan verður seint á vísum stað.

+ Credits & Info

Released September 2012

Recorded in studio Hljdriti, Iceland 2012

Engineered by Gudmundur Kristinn Jonsson, Ásgeir Trausti Einarsson, Sigurdur Gudmundsson and Kristinn Snaer Agnarsson

Produced, mixed and mastered by Gudmundur Kristinn Jonsson

Photography by Jonina de la Rosa

Design by Bobby Breidholt

℗ 2013 One Little Indian Records
© 2013 One Little Indian Records